Kortlagningasjónaukar

Survey TelescopeMynd: Steven Beard – UKATC

Himininn kortlagður nákvæmlega

Nýverið voru tveir nýir og öflugir sjónaukar, Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy (VISTA) og VLT Survey Telescope (VST), teknir í notkun í Paranal-stjörnustöð ESO í norðurhluta Chile. Þeir eru án nokkurs vafa öflugustu kortlagningarsjónaukar heims og munu auka umtalsvert möguleikann á nýjum uppgötvunum í Paranal-stjörnustöðinni.

Mörg áhugaverðustu fyrirbærin í geimnum, allt frá litlum en mögulega hættulegum jarðnándarsmástirnum til fjarlægra dulstirna, eru sjaldgæf. Að finna þau má líkja við leit að nál í heystakki. Stærstu sjónaukarnir, eins og Very Large Telescope (VLT) ESO og Hubblessjónauki NASA og ESA, geta ekki kannað nema lítinn hluta himins í einu. Þess vegna eru VISTA og VST hugsaðir til að ljósmynda stór svæði himins ört og greina í leiðinni lítil og dauf fyrirbæri. Sjónaukarnir tveir verja allt að fimm árum í að kortleggja himinhvolfið níu sinnum og afla þannig miklu magni upplýsinga sem eiga eftir að halda stjörnufræðingum við efnið næstu áratugi. Kortlagningarsjónaukar sem þessir leika veigamikið hlutverk í undirbúningsvinnu fyrir European Extremely Large Telescope (E-ELT) og James Webb geimsjónaukann.

Gerðar verða ítarlegri rannsóknir með VLT, öðrum sjónaukum á jörðinni og geimsjónaukum á áhugaverðum fyrirbærum sem uppgötvast með kortlagningarsjónaukarnir. Báðir sjónaukarnir eru staðsettir nálægt VLT.

Safnspegill VISTA er 4,1 metrar í þvermál. Er hann því langstærsti sjónauki heims sem tileinkaður er kortlagningu himins á nær-innrauðum bylgjulengdum. Sjónaukinn var þróaður og smíðaður í Bretlandi og var hluti af framlagi Breta við inngönguna í ESO en Breska vísinda- og tækniráðið (STFC: Science and Technology Facilities Council) greiðir fyrir þátttöku þeirra. Enginn spegill af þessari stærð er jafn mikið sveigður. Smíði hans er mikið afrek. Í VISTA er þriggja tonna 67 megapixla myndavél með 16 innrauðum ljósnemum. Þessi myndavél spannar stærsta bylgjulengdarsvið allra nær-innrauðra myndavéla hingað til.

VISTA rannsakar alheiminn í lengri bylgjulengdum en mannsaugað greinir. Það gerir sjónanukanum kleift að skyggnast inn í köld rykský sem hleypa sýnilegu ljósi ekki í gegn og sjá ljós sem útþensla alheimsins hefur teygt yfir á lengri bylgjulengdir.

VISTA getur kortlaggt fyrirbæri suðurhimnis með 40 sinnum meiri nákvæmni en áður hefur verið gert, eins og t.d. Two Micron All-Sky Survey. VISTA hóf kortlagningu himins síðla árs 2009. Kortlagningar VISTA hófust snemma árs 2010.

VST er 2,4 metra sjónauki í hæsta gæðaflokki. Á honum er OmegaCAM, 268 megapixla CCD-myndavél með fjórfalt víðara sjónsvið en sem nemur flatarmáli fulls tungls á himinhvolfinu. VST kortleggur himininn í sýnilegu ljósi og er þess vegna góð viðbót við VISTA. Sjónaukinn er afrakstur samstarfs ESO og Capodimonte Astronomical Observatory (OAC) í Napólí sem er rannsóknarmiðstöð Ítölsku stjarneðlisfræðistofnunarinnar (INAF: Italian National Institute for Astrophysics). VST var tekinn í notkun í Paranal-stjörnustöðinni árið 2011.

Kortlagningin mun vonandi varpa ljósi á margar forvitnilegustu ráðgátum nútíma stjarnvísinda, allt frá eðli hulduefnisins til hættulegra jarðnándarsmástirna. Í Evrópu hefur fjölmennur hópur stjörnufræðinga yfirumsjón með verkefnunum. Kortlagningin beinist að stærsta hluta suðurhiminsins en í sumum tilvikum verða smærri svæði kortlögð nánar.

Ljóst er að bæði VISTA og VST koma til með að safna feikilegu magni af upplýsingum. Ein ljósmynd frá VISTA er 67 megapixlar en 268 megapixlar frá OmegaCAM. Sjónaukarnir tveir safna meiri upplýsingu á hverri nóttu en öll mælitæki VLT samanlagt. Í heildina safna VST og VISTA yfir 100 terabætum af upplýsingum ár hvert.