Mynd vikunnar 2012

31. desember 2012

Suðurstjörnur snarsnúast yfir ALMA

Babak Tafreshi, einn af ljósmyndurum ESO, tók þessa fallegu mynd af loftnetum Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) undir suðurhimninum.

Stjörnurnar á himninum minna um margt á verk van Goghs, Stjörnubjört nótt, eða kannski minnir myndin aðdáendur vísindaskáldskapar fremur á geimfar á ógnarhraða um geiminn. Myndin sýnir snúning jarðar eins og hann birtist á löngum lýsingartíma myndarinnar. Þegar jörðin snýst á suðurhvelinu sýnast stjörnurnar hreyfast í kringum suðurpól himins, sem er í daufa stjörnumerkinu Áttungnum milli Suðurkrossins og Magellansskýjanna. Á löngum lýsingartíma mynda stjörnurnar hringlaga slóðir þegar jörðin snýst.

Myndin var tekin á Chajnantor hásléttunni í 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli í Andesfjöllum Chile. Þar er ALMA sjónaukann að finna en loftnet hans sjást fremst á myndinni. ALMA er öflugasti sjónauki heims til rannsókna á hinum kalda alheimi — sameindagasi og ryki, sem og bakgrunnsgeislun Miklahvells. Þegar smíði ALMA lýkur árið 2013, mun sjónaukinn samanstanda af 54 tólf metra loftnetum og 12 sjö metra loftnetum. Mælingar hófust reyndar með hluta raðarinnar árið 2011. Jafnvel þótt sjónaukinn sé ekki fullbúinn hefur hann þegar skilað framúrskarandi niðurstöðum, mun betri en allir aðrir sjónaukar sömu gerðar. Sum loftnetin eru móðukennd á myndinni því sjónaukinn var að störfum og hreyfðist þegar myndin var tekin.

ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samræmd stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Tenglar


24. desember 2012

Afskekkta ALMA

Þessi víðmynd af Chajnantor hásléttunni sýnir staðinn sem Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) er að rísa á, eins og hann birtist frá Cerro Chico, nálægum fjallstindi. Babak Tafreshi, einn af ljósmyndurum ESO, hefur tekist að fanga það einmanalega andrúmsloft sem þarna ríkir í 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli í Andesfjöllum Chile. Leikur ljóss og skugga málar landslagið og undirstrikar hversu ójarðneskt það er á tíðum. Fremst á myndinni eru ALMA lofnetin samankomin í þyrpingu og minna einna helst á skrítna gesti á sléttunni. Þegar smíði sjónaukans lýkur árið 2013 mynda 66 slík loftnet röðina og munu öll starfa sem ein heild.

ALMA er þegar farin að bylta rannsóknum stjörnufræðinga á millímetra og hálfsmillímetra sviðinu. Þótt röðin sé hálfkláruð er ALMA mun öflugari en nokkur annar sambærilegur sjónauki og gerir stjörnufræðinga betur í stakk búna en nokkru sinni fyrr til að rannsaka hinn kalda alheim — sameindagas og ryk sem og eftirgeislun Miklahvells. ALMA rannsakar byggingareiningar stjarna, reikistjarna, vetrarbrauta og lífsins sjálfs. Sjónaukinn mun hjálpa stjörnufræðingum að svara sumum af dýpstu spurningunum um uppruna okkar í alheiminum, með því að sýna okkur nákvæmlega hvernig stjörnur og reikistjörnur verða til í gasskýjum í nágrenni okkar í geimnum og nema fjarlægar vetrarbrautir við endimörk hins sýnilega alheims, sem birtast okkur eins og þær litu út fyrir meira en tíu milljörðum ára.

ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samræmd stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Tenglar


17. desember 2012

Paranal og skuggi jarðar

Babak Tafreshi, einn af ljósmyndurum ESO, tók þessa glæsilegu víðmynd af Paranal stjörnustöð ESO.

Í forgrunni sést tilþrifamikið fjallalandslag Atacamaeyðimerkurinnar. Vinstra megin, á þeim tindi sem rís hæst, er Very Large Telescope (VLT) ESO og fyrir framan hann, litlu neðar, er VISTA sjónaukinn (Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy).

Í bakgrunni mála litir sólarupprásar himininn yfir Paranal í fallegum pastellitum. Við sjóndeildarhringinn má sjá ský yfir Kyrrahafinu — sem er aðeins 12 km frá Paranal.

Fyrir ofan sjóndeildarhringinn, þar sem skýin bera við himinn, sést dökk slæða. Þetta er skugginn sem reikistjarnan jörð varpar á eigin lofthjúp. Þetta fyrirbæri sést stundum í kringum sólarupprás og sólsetur, sé himininn heiður og ekkert sem byrgir sýn út að sjóndeildarhringnum — aðstæður sem svo sannarlega eru í Paranal stjörnustöðinni. Fyrir ofan skugga jarðar er bleikleitur bjarmi sem kallast belti Venusar. Venusarbeltið má rekja til ljóss frá sólinni sem lofthjúpur jarðar dreifir þegar sólin er að rísa (eins og í þessu tilviki) eða ganga til viðar.

Tenglar


10. desember 2012

Stjörnur á snúningi

Við fyrstu sýn lítur þessi mynd út eins og abstrakt listaverk úr nútímanum, en í raun er þetta mynd tekin á löngum tíma af næturhimninum yfir Chajnantor hásléttunni í Andesfjöllum Chile. Þegar jörðin snýst í átt að nýjum degi, mynda stjörnur Vetrarbrautarinnar litríkar rákir yfir eyðimerkurhimninum. Fremst sést hátæknivæddur stjörnusjónauki, dálítið draumkenndur á þessari mynd.

Þessi heillandi mynd var tekin í 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli á Chajnantor hásléttunni, heimili Atacama Pathfinder Experiment (APEX) sjónaukans, sem hér sést. APEX er 12 metra breiður sjónauki sem safnar ljósi á millímetra og hálfsmillímetra sviðinu. Stjörnufræðingar nota APEX til að rannsaka fyrirbæri á borð við köld gas- og rykský, þar sem nýjar stjörnur verða til, og elstu og fjarlægustu vetrarbrautir alheims.

APEX er forveri Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), byltingarkennds sjónauka sem ESO og alþjóðlegir samstarfsaðilar eru að koma upp og starfrækja á Chajnantor hásléttunni. Þegar smíði ALMA lýkur árið 2013 mun röðin samanstanda af fimmtíu og fjórum 12 metra breiðum loftnetum auk tólf 7 metra breiðum loftnetum. Sjónaukarnir tveir bæta hvorn annan upp: Með sínu víða sjónsviði getur ALMA fundið mörg áhugaverð viðfangsefni á stórum svæðum á himninum sem ALMA mun rannsaka nánar í miklu hærri upplausn. Bæði APEX og ALMA eru mikilvæg tæki sem hjálpa stjörnufræðingum að læra meira um það hvernig alheimurinn virkar, eins og myndun stjarnanna sem sjást á snúningi á myndinni.

Babak Tafreshi, ljósmyndari ESO, tók þessa mynd. Hann er einnig stofnandi The World at Night, verkefnis sem snýst um að búa til og sýna glæsilegar ljósmyndir og myndskeið af fallegum og sögufrægum stöðum á jörðinni undir stjörnubjörtum himni.

APEX er samstarfsverkefni Stofnunar Max Planck í útvarpsstjörnufræði (MPIfR) Onsala Space Observatory (OSO) og ESO, sem sér jafnframt um rekstur sjónaukans. ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu.

Tenglar


3. desember 2012

Frá Antu til Yepun — VLT í smíðum

Á þessu ári fagnar ESO fimmtíu ára afmæli sínu. Til að fagna því sýnum við ykkur svipmyndir af sögu okkar. Einu sinni í mánuði árið 2012 verður mynd vikunnar tileinkuð sérstökum „þá og nú“ samanburði sem sýnir hvernig hlutirnir hafa breyst undanfarna áratugi í La Silla og Paranal stjörnustöðvunum, skrifstofum ESO í Santiago í Chile og höfuðstöðvunum í Garching bei München í Þýskalandi.

Very Large Telescope (VLT), flaggskip ESO á Cerro Paranal í Chile, samanstendur af fjórum stórum aðalsjónaukum sem hver um sig hefur 8,2 metra breiðan safnspegil, auk fjögurra færanlegra 1,8 metra hjálparsjónauka. Ljósmyndir okkar þennan mánuðinn sýna einn af aðalsjónaukunum í smíðum en hin myndin sýnir útlit annars í dag.

Á gömlu myndinni sést fyrsti aðalsjónaukinn í smíðum snemma í verkferlinu seint í október árið 1995. Búið er að steypa grunninn og festa neðri fasta hluta málmhvolfsins við hann. Fyrstu hlutarnir af þeim hluta hvelfingarinnar sem snýst hefur einnig verið komið fyrir — neðsti hluti breiða opsins sem sjónaukinn horfir út um og þunga, lárétta grindin sem mun halda rennihurðunum uppi snúa að okkur. Þessi sjónauki barði alheiminn fyrst augum þann 25. maí 1998 (sjá eso9820).

Við vígslu Paranal árið 1999 (sjá eso9921) var aðalsjónaukunum fjórum gefið nafn úr tungumáli Mapuche ættbálksins. Nöfnin — Antu, Kueyen, Melipal og Yepun fyrir hvern sjónauka, frá þeim fyrsta til hins fjórða — merkja fjögur áberandi og falleg kennileiti á himninum: Sólin, tunglið, stjörnumerkið Suðurkrossinn og Venus [1].

Á nýju ljósmyndinni sést aðalsjónauki fjögur, Yepun, sem tekinn var í notkun í september árið 2000 (sjá eso0028). Hann gefur fullkomna mynd af því hvernig eldri bróðir hans lítur út enda eru allir sjónaukarnir nákvæmlega eins. Einungis mælitækin skilja á milli sjónaukanna en þau veita stjörnufræðingum fjölbreytt úrval af tækjum til að rannsaka alheiminn. Gula byggingin fyrir framan Yepun er lyfta sem hægt er að færa milli sjónaukanna. Hún er notuð til að fjarlæga risaspeglana þegar þeir eru endurhúðaðir annað slagið.

Á þeim árum sem liðin eru frá því að gamla myndin var tekin, hefur fyrsti aðalsjónaukinn hlotið nafn — Antu — en líka eignast fjölskyldu því aðrir sjónaukar hafa bæst við á fjallstindinum. Í dag er VLT öflugasti stjörnusjónauki heims fyrir rannsóknir á sýnilegu ljósi og Antu, Yepun og hinir sjónaukarnir á Paranal hafa leikið lykilhlutverk í að gera ESO að lang afkastamestu stjörnustöð heims!

Skýringar

[1] Nafnið Yepun hafði verið þýtt sem „Síríus“ á þeim tíma þegar vígsla Paranal fór fram (sjá eso9921) en síðari tíma rannsókn sýndi að rétta þýðingin er „Venus“.

Tenglar


19. nóvember 2012

Ísfélagar APEX

Atacama Pathfinder Experiment (APEX) sjónaukinn — sem hér sést á þessari fallegu mynd sem Babak Tafreshi, einn af ljósmyndurum ESO, tók — er eitt af verkfærunum sem ESO notar til að skyggnast út fyrir svið sýnilegs ljóss. Sjónaukinn er staðsettur á Chajnantor hásléttunni í 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli.

Í forgrunni myndarinnar sést þyrping hvítra ísstrýta. Ísstrýturnar eru áhugaverð náttúrufyrirbæri sem finnast á hálendum svæðum, venjulega í meira en 4.000 metra hæð yfir sjávarmáli. Stýrturnar eru úr þunnum, hörðnuðum snjó eða ís og snúa blöðin í átt að sólinni. Þær eru stundum nokkrir sentímetrar á hæð upp í nokkra metra.

APEX er tólf metra breiður sjónauki sem nemur ljós með millímetra og hálfsmillímetra bylgjulengdir. Stjörnufræðingar sem nota APEX til sinna rannsókna, geta séð fyrirbæri sem eru ósýnileg á styttri bylgjulengdum. Sjónaukinn gerir þeim kleift að kanna sameindaský — þétt svæði úr gasi og geimryki þar sem nýjar stjörnur verða til — sem eru dökk og hulin ryki í sýnilegu og innrauðu ljósi en skína skært á þessum löngum bylgjulengdum. Stjörnufræðingar nota þessa gerð ljóss til að rannsaka eðlis- og efnafræðina í skýjunum. Tíðnisviðið er einnig kjörið til að rannsaka sumar af elstu og fjarlægustu vetrarbrautum í alheiminum.

Á næturhimninum vinstra megin fyrir ofan APEX sjást daufir þokublettir Litla og Stóra Magellansskýjanna, nágrannavetrarbrautir okkar. Þokuslæðan sem liggur yfir himininn er vetrarbrautin okkar en hún er mest áberandi yfir stjórnstöð APEX hægra megin. Dökku blettirnir í slæðunni eru rykský milli stjarnanna sem hindra að ljós frá fjarlægum stjörnum fyrir atan berist til okkar. Á bak við þessi dimmu ský er miðja vetrarbrautarinnar í um 27.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Sjónaukar eins og APEX eru nauðsynleg tæki fyrir stjörnufræðinga sem vilja horfa í gegnum rykið og rannsaka miðju vetrarbrautarinnar í smáatriðum.

APEX er samstarfsverkefni Stofnunar Max Planck í útvarpsstjörnufræði (MPIfR) Onsala Space Observatory (OSO) og ESO, sem sér jafnframt um rekstur sjónaukans.

Tenglar


12. nóvember 2012

Ein mynd, margar sögur

Babak Tafreshi, einn af ljósmyndurum ESO, tók þessa glæsilegu mynd af himninum yfir Paranal stjörnustöð ESO með fjölmörgum djúpfyrirbærum.

Greinilegust er Kjalarþokan, rauðglóandi á miðri mynd. Kjalarþokan er í stjörnumerkinu Kilinum, um 7.500 ljósár frá jörðinni. Þetta glóandi gas- og rykský er bjartasta þokan á himninum og geymir nokkrar af björtustu og massamestu stjörnum sem vitað er um í vetrarbrautinni okkar, eins og Eta Carinae. Kjalarþokan er kjörin fyrir þá stjörnufræðinga sem rannsaka leyndardómana á bak við myndun og dauða massamikilla stjarna. Þú getur skoðað nokkrar nýlegar og fallegar myndir af Kjalarþokunni frá ESO hér: eso1208, eso1145 og eso1031.

Fyrir neðan Kjalarþokuna sjáum við Óskabrunnsþyrpinguna (NGC 3532). Þessi lausþyrping ungra stjarna dregur nafn sitt af því, að í gegnum stjörnusjónauka, lítur hún út eins og mynt sem glitarar á botni óskabrunns. Lengra til hægri sjáum við Lambda Centauri þokuna (IC 2944), glóandi vetnisský og nýfæddar stjörnur, sem stundum er kölluð Kjúklingurinn hlaupandi vegna fuglsmynstur sem sumir sjá út úr bjartasta hluta þokunnar (sjá eso1135). Fyrir ofan þessa þoku og örlítið til vinstri er Suðursjöstirnið (IC 2632), lausþyrping stjarna sem svipar til frægari þyrpingar á norðurhveli.

Í forgrunni sjáum við þrjá af fjórum hjálparsjónaukum Very Large Telescope víxlmælisins (VLTI). Með VLTI er hægt að nota hjálparsjónaukana — eða 8,2 metra VLT sjónaukana — saman sem einn risasjónauka sem getur greint fínni smáatriði en mögulegt væri með sjónaukunum stökum. VLTI hefur verið notaður í ýmis rannsóknarverkefni, þar á meðal rannsóknir á aðsópskringlum í kringum ungar stjörnur og virka vetrarbrautakjarna sem eru með orkuríkustu og dularfyllstu fyrirbærum í alheiminum.

Tenglar


5. nóvember 2012

Að byggja Paranal Residencia — Frá umróti til friðsældar

Á þessu ári fagnar ESO fimmtíu ára afmæli sínu. Til að fagna því sýnum við ykkur svipmyndir af sögu okkar. Einu sinni í mánuði árið 2012 verður mynd vikunnar tileinkuð sérstökum „þá og nú“ samanburði sem sýnir hvernig hlutirnir hafa breyst undanfarna áratugi í La Silla og Paranal stjörnustöðvunum, skrifstofum ESO í Santiago í Chile og höfuðstöðvunum í Garching bei München í Þýskalandi.

Á myndum þessa mánaðar, sem teknar voru í Paranal stjörnustöð ESO í Atacamaeyðimörkinni í Chile, sést samanburður á byggingarsvæði í nóvember árið 1999 við daginn í dag: Gistiaðstöðu stjörnustöðvarinnar sem kallast Paranal Residencia. Hugsaðu þér breytinguna þá og nú: Glymjandi hamrar og borvélar og hávaði í dráttarvélum og krönum hafa horfið á braut og í staðinn risin friðsæl eyðimerkurbygging sem setur svip á umhverfi sitt. Byggingin er gerð úr náttúrulegum efnum og litum og smíðuð inn í lægði í eyðimörkinni sem tryggir að hún fellur vel inn í umhverfið.

Residencia var byggt sem griðarstaður fyrir stjörnufræðinga og annað starfsfólk í einu harðneskjulegasta umhverfi sem hægt er að ímynda sér, þar sem þurrt loft, sterk útfjólublá geislun frá sólinni, sterkir vindar og mikil hæð eru hluti af daglegu lífi. Verktakarnir sem reistu Residencia og unnu við þessar erfiðu aðstæður, hafa skapað notalega vin í skraufþurri eyðimörkinni fyrir starfsfólk stjörnustöðvarinnar en fullkláruð ber byggingin fagurt vitni um vinnu þeirra. Í Residencia eru meira en 100 herbergi auk mötuneytis, setustofu, sundlaugar, líkamsræktarstöðvar og bókasafns. Frá vesturhlið byggingarinnar er glæsilegt útsýnir frá vesturhlíðinni yfir eyðimörkina í átt að Kyrrahafinu og sólsetrinu.

Á báðum myndum sést eitt í viðbót: Fyrir aftan Residencia, 2.600 metra yfir sjávarmáli á tindi Cerro Paranal, er Very Large Telescope (VLT) ESO. Þetta er fullkomnasti stjörnusjónauki heims fyrir sýnilegt ljós og ástæða þess að Residencia og allir sem gista innan veggja þess, er þarna!

Tenglar


29. október 2012

Staður til að kanna köldustu leyndardóma alheims

Á þessari fallegu víðmynd sem Babak Tafreshi, ljósmyndari ESO tók, sést Chajnantor hásléttan í Atacamaeyðimörkinni í Chile böðuð síðustu geislum sólar. Á sléttunni er Atacama Pathfinder Experiment (APEX) sjónaukinn sem sjá má vinstra megin á myndinni. Frá þessum afvikna stað í 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli, rannsakar APEX hinn „kalda alheim“.

APEX er tólf metra breiður sjónauki sem nemur ljós með millímetra og hálfsmillímetra bylgjulengdir. Stjörnufræðingar sem nota APEX til sinna rannsókna, geta séð fyrirbæri sem eru ósýnileg á styttri bylgjulengdum. Sjónaukinn gerir þeim kleift að kanna sameindaský — þétt svæði úr gasi og geimryki þar sem nýjar stjörnur verða til — sem eru dökk og hulin ryki í sýnilegu og innrauðu ljósi en skína skært á þessum löngum bylgjulengdum. Stjörnufræðingar nota þessa gerð ljóss til að rannsaka eðlis- og efnafræðina í skýjunum. Tíðnisviðið er einnig kjörið til að rannsaka sumar af elstu og fjarlægustu vetrarbrautum í alheiminum.

Frá því að APEX var tekinn í notkun árið 2005 hefur sjónaukinn skilað mörgum mikilvægum niðurstöðum. Sem dæmi starfaði APEX með Very Large Telescope ESO til að greina efni sem svartholið í miðju okkar vetrarbrautar var að tæta í sundur (eso0841). Sú niðurstaða sem er meðal 10 merkustu uppgötvana ESO.

Í kringum APEX sést þyrping hvítra ísstrýta. Ísstrýturnar eru áhugaverð náttúrufyrirbæri sem finnast á hálendum svæðum, venjulega í meira en 4.000 metra hæð yfir sjávarmáli. Stýrturnar eru úr þunnum, hörðnuðum snjó eða ís og snúa blöðin í átt að sólinni. Þær eru stundum nokkrir sentímetrar á hæð upp í nokkra metra.

APEX er samstarfsverkefni Stofnunar Max Planck í útvarpsstjörnufræði (MPIfR) Onsala Space Observatory (OSO) og ESO, sem sér jafnframt um rekstur sjónaukans.

Tólf metra loftnet APEX er byggt á frumgerð loftnets fyrir aðra stjörnustöð á Chajnantor, Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA). ALMA verður röð 54 tólf metra breiðra loftneta auk 12 sjö metra loftneta þegar smíðinni lýkur árið 2013. ESO tekur þátt í þessari alþjóðlegu stjörnustöð fyrir hönd Evrópu en um er að ræða samstarfsverkefni Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile.


22. október 2012

VISTA í smíðum, heimsins stærsti kortlagningarsjónauki

Á þessu ári fagnar ESO fimmtíu ára afmæli sínu. Til að fagna því sýnum við ykkur svipmyndir af sögu okkar. Einu sinni í mánuði árið 2012 verður mynd vikunnar tileinkuð sérstökum „þá og nú“ samanburði sem sýnir hvernig hlutirnir hafa breyst undanfarna áratugi í La Silla og Paranal stjörnustöðvunum, skrifstofum ESO í Santiago í Chile og höfuðstöðvunum í Garching bei München í Þýskalandi.

Frá því í desember 2009 hefur Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy (VISTA) kortlagt suðurhimininn frá Paranal stjörnustöð ESO í Chile. Á samanburðarmynd þessa mánaðar sést VISTA í smíðum annars vegar og í dag hins vegar.

Eldri myndin var tekin síðla árs 2004 og sýnir bygginguna yfir sjónaukanum í smíðum. Grind hvolfsins situr á sívalningslaga grunni, umlukinn vinnupalli. VISTA er staðsettur á tindi um 1.500 metrum norðaustur af Cerro Paranal þar sem Very Large Telescope ESO er að finna. Þegar sjónaukinn var í smíðum var tindurinn lækkaður um fimm metra eða niður í 2.518 metra svo hægt væri að setja upp 4000 fermetra pall fyrir sjónaukann.

Á nýju myndinni sést VISTA sjónaukinn fullbúinn. Hvolfið er 20 metra breitt og ver sjónaukann fyrir harðneskjulegu umhverfinu. Tvær rennihurðir opnast og mynda gatið sem sjónaukinn horfir út um en þar er einnig vindhlíf sem hægt er að setja upp til að loka gatinu að hluta ef þarf. Aukadyr í byggingunni verka eru opnaðar til að loftræsta á næturnar. Í byggingunni í forgrunni, gegnt hvolfinu, er viðhaldsbúnaður og húðunartæki sem notað er til að húða örþunnu silfurlagi á spegla sjónaukans svo þeir endurvarpi ljósinu sem best.

VISTA nemur nær-innrauðar bylgjulengdir með 67 megapixla myndavél sem vegur þrjú tonn. Safnspegill sjónaukans, vítt sjónsvið og mjög næmir innrauðir ljósnemar gera hann að öflugasta kortlagningarsjónauka heims.

Samstarfshópur 18 háskóla í Bretlandi, undir forystu Queen Mary, University of London, hafði umsjón með hönnun og þróun VISTA en sjónaukinn var framlag Bretlands til ESO þegar landið gekk til liðs við samtökin. Verkefnisstjórn var í höndum Science and Technology Facilities Council’s UK Astronomy Technology Center (STFC, UK ATC).

Tenglar


15. október 2012

Frá varadekki til fíngerðs blóms

IC 5148 er falleg hringþoka í um 3000 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Trönunni. Þokan er nokkur ljósár í þvermál og vex á um 50 kílómetra hraða á sekúndu — hraðast allra þekktra hringþoka. Hringþokur eru kallaðar plánetuþokur (planetary nebula) á ensku því þegar menn sáu þær fyrst, litu þær út eins og plánetur í gegnum sjónaukana. Hringþokur eiga samt ekkert skylt við reikistjörnur.

Þegar stjarna, álíka massamikil og sólin eða örlítið massameiri, nálgast ævilok sín, varpar hún frá sér ytri lögum sínum út í geiminn. Gasið þenst út og lýsist upp af heitum kjarna stjörnunnar í miðjunni og hringþoka verður til sem oft eru mjög fallegar.

Þessi tiltekna hringþoka sést sem daufur efnishringur í gegnum áhugamannasjónauka en stjarnan — sem kólnar og verður hvítur dvergur — skín í miðju gatsins. Útlitsins vegna nefndu stjörnufræðingar IC 5148 Varadekkjarþokuna.

ESO Faint Object Spectrograph and Camera (EFOSC2) á New Technology Telescope í La Silla stjörnustöðinni gefur nokkuð betri mynd af þessu fyrirbæri. Í stað þess að líkjast varadekki minnir þokan meira á blóm með hálfgegnsæjum krónublöðum.


8. október 2012

VISTA fyrir sólarlag

Paranal stjörnustöð ESO í Atacamaeyðimörkinni í Chile er þekktust fyrir Very Large Telescope (VLT), flaggskip ESO. Á síðustu árum hefur staðurinn einnig orðið heimili tveggja kortlagningarsjónauka í hæsta gæðaflokki. Þessir nýju meðlimir í Paranal fjölskyldunni eru hannaðir til að taka ljósmyndir af stórum svæðum á himninum bæði hratt og djúpt.

Annar þeirra, 4,1 metra Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy (VISTA), er staðsettur á næsta fjallstindi, ekki ýkja langt frá Paranaltindi. Hann sést á þessari fallegu mynd sem ljósmyndari ESO, Babak Tafreshi, tók frá Paranal. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki heims og hefur verið í notkun frá desember 2009.

Í neðra hægra horni myndarinnar sést byggingin yfir VISTA fyrir framan, að því er virðist, endalausan fjallgarð sem teygir sig út til sjóndeildarhringsins. Þegar sólsetrið nálgast varpa fjöllin lengri skuggum sem smám saman færast yfir brúnleita litatóna hins glæsilega eyðimerkurlandslags sem umlykur Paranal. Fljótlega hverfur sólin undir sjóndeildarhringinn og sjónaukarnir í Paranal taka að berja alheiminn augum.

VISTA er sjónauki með vítt sjónsvið, hannaður til að kortleggja suðurhimininn í innrauðu ljósi mjög nákvæmlega sem gerir stjörnufræðingum kleift að greina sérstaklega dauf fyrirbæri. Markmið verkefnanna er að útbúa stórar skrár yfir stjarnfræðileg fyrirbæri til tölfræðilegra rannsókna og til að finna ný viðfangsefni sem hægt er að rannsaka nánar með VLT.

Tenglar


1. október 2012

Eldkeilan Licancabur stendur vörð yfir Chajnantor

Á þessari fallegu mynd sést Chajnantor hásléttan — heimili Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) — með hið tignarlega Licancabur eldfjallið í bakgrunni. Fremst sést skógur af ísstrýtum. Þessar strýtur eru áhugaverð náttúrufyrirbæri sem finnast aðallega á hálendum stöðum. Þær eru þunnar snjó- eða ísmyndanir með skarpar brúnir sem stefna í átt að sólinni og eru frá nokkrum sentímetrum upp í nokkra metra að stærð. Þú getur fræðst meira um ísstrýtur í eldri mynd vikunnar (potw1221).

Licancabur eldfjallið rís upp í 5.920 metra hæð og er helsta landslagseinkenni San Pedro de Atacama svæðisins í Chile. Keilulögunin gerir það auðþekkjanlegt, jafnvel úr mikilli fjarlægð. Fjallið er staðsett á syðsta hluta landamæra Chile og Bólivíu. Í toppgíg eldfjallsins er eitt hæsta stöðuvatn heims. Þetta vatn hefur fangað athygli líffræðinga sem rannsaka hvernig örverur geta þrifist í því þrátt fyrir mjög harðneskjulegt umhverfi, mikla útfjólubláa geislun og mikinn kulda. Það hvernig örverur í Licancabur vatninu lifa af gæti veitt okkur innsýn í möguleikann á lífi á Mars í fyrndinni.

Ljósmyndina tók Babak Tafreshi, einn af ljósmyndurum ESO, nálægt ALMA stjórnstöðinni.

ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samræmd stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Tenglar


24. september 2012

Erfið vinnunótt framundan

Sólsetur er venjulega merki um að enn öðrum vinnudegi sé lokið. Borgarljósin kvikna þegar fólk heldur til síns heima, áfram um að njóta kvöldsins og eiga góðan nætursvefn. Þetta á hins vegar ekki við um stjörnufræðinga sem starfa í stjörnustöð eins og Paranal stjörnustöð ESO í Chile. Athuganir hefjast um leið og sólin hefur gengið til viðar. Allt þarf að vera klárt þegar húmar að.

Þessi panoramamynd sýnir Very Large Telescope (VLT) ESO fyrir framan fallegt sólarlag á Cero Paranal. Byggingar VLT eru áberandi á myndinni en sjónaukarnir í þeim eru reiðubúnir að rannsaka alheiminn. VLT er öflugasti stjörnusjónauki heims sem samanstendur af fjórum sjónaukum með 8,2 metra safnspegla og fjórum 1,8 metra hjálparsjónaukum sem sjást vinstra megin á myndinni.

Sjónaukarnir geta unnið saman sem einn risasjónauki, ESO Very Large Telescope Interferometer (VLTI), sem gerir stjörnufræðingum kleift að greina fínustu smáatriði. Þessi skipan er aðeins notuð í takmarkaðan fjölda nátta á ári. Oftast eru 8,2 metra sjónaukarnir notaðir hver í sínu lagi.

Undanfarin 13 ár hefur VLT haft mikil áhrif á stjörnuathuganir. Tilkoma VLT var lyftistöng fyrir evrópsk stjarnvísindi en með honum hafa stjörnufræðingar meðal annars rakið ferla stjarna á braut um svartholið í miðju vetrarbrautarinnar og náð fyrstu myndinni af fjarreikistjörnu. Þessar uppgötvanir eru tvær af þremur efstu í topp 10 uppgötvunum ESO.

VLT sjónaukarnir fjórir eru nefndir eftir fyrirbærum á himninum á Mapuche, sem er gamalt tungumál innfæddra í Chile og Argentínu. Frá vinstri til hægri eru Antu (sólin), Kueyen (tunglið), Melipal (Suðurkrossinn) og Yepun (Venus).

Myndina tók Babak Tafreshi, ljósmyndari ESO.


17. september 2012

ALMA og stjörnubjartur himinn — Tignarleg sjón

Það er einstaklega ánægjulegt að vera undir kristaltærum himni á næturnar. En ef þú ert staddur eða stödd á í 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli á Chajnantor sléttunni í Andesfjöllum Chile, einum besta stjörnuathugunarstað heims, getur það verið ógleymanlegt.

Hér sést víðmynd af nokkrum loftnetum Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) fyrir framan glæsilegan, stjörnubjartan næturhiminn.

Í forgrunni sjáum við nokkur loftnet ALMA að störfum. Sléttan sýnist sveigð vegna bjögunar frá víðlinsunni sem notuð var. ALMA er öflugasti sjónauki heims til rannsókna á hálfsmillímetra- og millímetra-geislun úr geimnum. Smíði ALMA verður lokið árið 2013 þegar 66 loftnet verða starfandi á staðnum. Um þessar mundir standa yfir fyrstu athuganir sjónaukans (Early Science Observations). Þótt röðin sé ekki tilbúin er sjónaukinn þegar farinn að skila framúrskarandi niðurstöðum og er betri en allir aðrir hálfsmillímetra sjónaukar.

Á himninum fyrir ofan loftnetin glitra óteljandi stjörnur eins og fjarlægir gimsteinar. Tvö fyrirbæri eru mest áberandi. Fyrst er að nefna tunglið sem skín skært á himninum en á bak við það sést vetrarbrautin sem þokukennd slæða yfir himininn. Dökku svæðin í slæðunni eru staðir þar sem ljós frá stjörnum fyrir aftan berst ekki í gegnum þykk rykský.

Þessa mynd tók Babak Tafreshi, ljósmyndari ESO og stofnandi The World at Night verkefnisins sem snýst um að skapa og sýna fallegar ljósmyndir og myndskeið af fallegum, söguleikum stöðum víða um heim undir stjörnubjörtum himni.

ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samræmd stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).


3. september 2012

Risabóla sem kemur á óvart

Á þessari nýju og litríku mynd sést stjörnumyndunarsvæðið LHA 120-N44 [1] í Stóra Magellansskýinu, lítilli fylgivetrarbraut okkar vetrarbrautar. Mynd frá 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile af sýnilegu ljósi hefur verið skeytt saman við myndir af innrauðu ljósi og röntgengeislun sem teknar voru með geimsjónaukum.

Svæðið inniheldur gas, ryk og ungar stjörnur en í miðju þess er stjörnuþyrpingin NGC 1929. Stærstu stjörnurnar í henni gefa frá sér sterka geislun og varpa frá sér efni með miklu offorsi á formi stjörnuvinda. Þær eiga skamma en kröftuga ævi fyrir höndum sem endar á því, að þær springa. Stjörnuvindarnir og höggbylgjur frá sprengistjörnum hafa skapað stórt holrúm, sem kallast risabóla, í umlykjandi gasi.

Mælingar Chandra röntgengeimsjónauka NASA (sýndar bláar) sýna heitustu svæðin sem vindarnir og höggbylgjurnar hafa myndað en innrauð gögn frá Spitzer geimsjónauka NASA (sýndar rauðar) marka þá staði þar sem ryk og kaldara gas er að finna. Mynd 2,2 metra MPG/ESO sjónaukans (gul) af sýnilegu ljósi setja svo punktinn yfir i-ið en hún sýnir heitu, ungu stjörnurnar sjálfar sem og glóandi gas- og rykskýin umhverfis þær.

Með því að skeyta saman þessum ólíku myndum af þessu dramatíska svæði, tókst stjörnufræðingum að leysa ráðgátu: Hvers vegna gefa N44 og samskonar risabólur frá sér svo mikla röntgengeislun? Svarið er að í skýinu eru tvær aðrar röntgenlindir: Höggbylgjur frá sprengistjörnum sem rekast á veggi í holrúminu og heitt efni sem gufar burt frá veggjum þess. Á myndinni sést þessi röntgengeislun frá jöðrum risabólunnar greinilega.

Tenglar

Skýringar

[1] Skráarheiti fyrirbærisins vísar til þess, að það er að finna í skrá yfir stjörnur og geimþokur í Magellansskýinu sem gefa frá sér vetnis-alfa geislun. Bandaríski stjörnufræðingurinn og geimfarinn Karl Henize (1926-1993) tók saman og gaf út skrána árið 1956. Bókstafurinn „N“ vísar til þess, að fyrirbærið sé geimþoka. Fyrirbærið er oft einfaldlega kallað N44.


27. ágúst 2012

Nóttin leggst yfir Paranal

Ímyndaðu þér að þú sért nýbúin(n) að horfa á fallegt sólsetur ofan af tindi Cerro Paranal. Þegar myrkrið hellist hægt og bítandi yfir Atacamaeyðimörkina, opna Very Large Telescope (VLT) sjónaukar ESO öflug augu sína og horfa út í alheiminn. Á þessari glæsilegu 360 gráðu víðmynd getur þú virt fyrir þér útsýnið, rétt eins og ef þú stæðir þarna við suðurjarðar VLT pallsins.

Fremst er verið að opna einn fjögurra hjálparsjónauka VLT. Vinstra megin við hann hefur sólin sest undir skýjabreiðuna yfir Kyrrahafinu sem liggur yfirleitt undir hæð Paranal. Á svæðinu sjást þrír aðrir hjálparsjónaukar fyrir framan stóru byggingarnar sem hýsa 8,2 metra sjónaukana fjóra. Við hægri enda myndarinnar glittir í Residencia og aðrar byggingar í grunnbúðunum, nokkuð í burtu.

Ímyndaðu þér að þú sért umvafin(n) djúpri kyrrð þegar nóttin skellur á. Ekkert truflar nema gnauðið í vindinum eða mjúk hreyfing risasjónaukanna. Þá er erfitt að gera sér í hugarlund þá miklu vinnu sem á sér stað í stjörnstöð VLT, sem staðsett er í hlíðum fjallsins rétt fyrir neðan pallinn í átt að sólsetrinu. Þar hefja stjörnufræðingar og stjórnendur sjónaukans fyrstu mælingar næturinnar.

Tenglar


20. ágúst 2012

Leysigeislastjarna skannar stjörnuhimininn

Öflugur leysigeisli frá Very Large Telescope (VLT) ESO skreytir næturhimininn yfir Atacamaeyðimörkinni í Chile á þessari fallegu mynd sem Julien Girard tók. Snúningur jarðar á þeim 30 mínútum sem myndin var lýst — og færsla leysigeislans þegar sjónaukinn vó á móti þessari hreyfingu — veldur því að geislinn virðist dreifa úr sér. Snúningur jarðar er einnig ástæða þess, að stjörnurnar birtast okkur sem rákir á myndinni en í þeim sést sá hárfíni litamunur sem er á mörgum þeirra.

Leysigeislinn er notaður til að útbúa ljóspunkt — gervistjörnu — með því að örva natríumatóm í 90 km hæð yfir jörðinni svo þau glóa. Mælingar á þessum leiðarstjörnum eru notaðar til að leiðrétta bjögunina sem lofthjúpur jarðar orsakar og kemur fram í mælingum. Þessi tækni kallast aðlögunarsjóntækni. Stundum eru bjartar náttúrulega stjörnur líka notaðar í aðlögunarsjóntækni en leysgeislanum má beina hvert sem er á himninum og nýta tæknina þar sem engar bjartar stjörnur eru í nágrenninu.

Stóru byggingarnar fjórar sem sjást á myndinni hýsa 8,2 metra VLT sjónaukana. Í forgrunni sést VLT Survey Telescope sem er öllu smærri. Ljósmyndarinn Julien er stjörnufræðingur hjá ESO í Chile sem starfar við VLT. Þá nótt sem hann tók þessa mynd, vann hann að mælingum með sjónaukanum lengst til hægri. Hann notaði tækifærið til að setja upp myndavélina sína á þrífót og smellti af áður en hann fór aftur inn í stjórnstöð sjónaukans.

Á meðan myndin var tekin snerust sjónaukarnir líka svo byggingarnar virðast móðukenndar. Á milli þeirra glittir í daufar ljósslóðir frá fólki sem gekk á milli sjónaukanna.

Julien sendi þessa mynd í Your ESO Pictures Flickr hópinn. Flickr hópurinn er skoðaður reglulega og bestu myndirnar valdar til fyrir mynd vikunnar eða í myndasafn okkar. Árið 2012 höldum við upp á 50 ára afmæli ESO og óskum einnig eftir myndum sem tengjast sögu ESO.

Tenglar


13. ágúst 2012

Órion vakir yfir ALMA

Veiðimaðurinn Óríon stendur vörð yfir loftnetum Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) á næturhimninum yfir Chile. Merkið er auðþekkjanlegt með Fjósakonurnar þrjár í belti Óríons. Myndin var tekin frá suðurhveli jarðar og sýnir sverð Óríons fyrir ofan beltið. Í sverðinu er eitt glæsilegasta fyrirbæri næturhiminsins — Sverðþokan í Óríon — sem sést sem „stjarna“ í miðju sverðsins en með berum augum við góðar aðstæður má þar koma auga á móðublett.

ALMA loftnetin þrjú sem sjást á þessari mynd eru aðeins lítill hluti af gervallri ALMA röðinni sem telur í heild 66 loftnet. ALMA sameinar merki frá þessum loftnetum í einn risasjónauka, allt að 16 km breiðann, með tækni sem kallast víxlmælingar. Þótt smíði sjónaukans ljúki ekki fyrr en 2013 hófust fyrstu mælingar með hluta raðarinnar síðla árs 2011.

ALMA býr við framúrskarandi aðstæður til rannsókna á himingeimnum þar sem sjónaukinn situr á Chajnantor hásléttunni í 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli í Andesfjöllunum í Chile. Nauðsynlegt er að koma ALMA upp í svona mikilli hæð því vatnsgufa og súrefni í lofthjúpi jarðar dregur í sig þá millímetra og hálfsmillímetra geislun sem ALMA er hönnuð til að kanna.

Á þessari mynd er verið að prófa loftnetin í þjónustumiðstöð ALMA sem er nokkru neðar eða í 2.900 metra hæð. Þegar loftnetin hafa verið prófuð og eru orðin starfhæf, eru þau flutt upp á Chajnantor sléttuna til að hefja störf.

Þessa mynd tók Adrian Russell sem sendi hana í Your ESO Pictures Flickr hópinn. Flickr hópurinn er skoðaður reglulega og bestu myndirnar valdar til fyrir mynd vikunnar eða í myndasafn okkar. Árið 2012 höldum við upp á 50 ára afmæli ESO og óskum einnig eftir myndum sem tengjast sögu ESO.

ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samræmd stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Tenglar


6. ágúst 2012

Frá malarvegi til fullkomnustu stjörnustöðvar heims

Á þessu ári fagnar ESO fimmtíu ára afmæli sínu. Til að fagna því sýnum við ykkur svipmyndir af sögu okkar. Einu sinni í mánuði árið 2012 verður mynd vikunnar tileinkuð sérstökum „þá og nú“ samanburði sem sýnir hvernig hlutirnir hafa breyst undanfarna áratugi í La Silla og Paranal stjörnustöðvunum, skrifstofum ESO í Santiago í Chile og höfuðstöðvunum í Garching bei München í Þýskalandi.

Á þessum myndum sést útsýnið frá innganginum að Paranal stjörnustöðinni í norðpur Chile. Horft er í átt að tindi Cerro Paranal eins og hann kom fyrir sjónir árið 1987 og eins og hann lítur út í dag.

Árið 1983 var Cerro Paranal svæðið fyrst kannað sem möguleg staðsetning Very Large Telescope (VLT) en í hópi þeirra sem rannsökuðu svæðið var þáverandi framkvæmdarstjóri ESO, Lodewijk Woitjer (sjá The Messenger nr. 64, bls. 5-8 fyrir frekari upplýsingar). Árið 1987 var malarvegur lagður upp á fjallið og varanleg athugunarstöð komið fyrir sem fylgdist með aðstæðum. Á gömlu myndinni sést hvernig svæðið leit út á þeim tíma.

Niðurstöður mælinganna voru mjög góðar — aðstæðurnar voru betri en á La Silla og öðrum stað sem einnig var til skoðunar. Niðurstöðurnar leiddu til þess að ESO ráðið ákvað í desember árið 1990 að byggja VLT sjónaukann á Paranal (sjá eso9015).

Á þeim 25 árum sem liðin eru frá því að gamla myndin var tekin hefur ótalmargt breyst á Paranal. Fjallstindurinn var jafnaður, malbikaður vegur lagður og að sjálfsögðu var sjónaukunum komið upp. Á nýju myndinni sést stjörnustöðin fullkláruð og starfandi. Á tindinum standa nú fjórir 8,2 metra sjónaukar VLT, auk fjögurra smærri 1,8 metra hjálparsjónauka sem notaðir eru í víxlmælingar og 2,6 metra VLT Survey Telescope. Við hliðið hafa margar byggingar risið í grunnbúðum stjörnustöðvarinnar. Eldri mynd vikunnar potw1230 gefur okkur annað sjónarhorn á þær.

Tenglar


  1 | 2 | 3 Næsta »
Niðurstöður 1 til 20 af 43
Bookmark and Share

Sjá einnig