VLT Survey Telescope

vst_lombardi_5

VLT Survey Telescope (VST) er nýjasti sjónaukinn í Paranal stjörnustöð ESO (eso1119). Hann er stærsti sjónauki heims sem hannaður er til að kortleggja himinninn í sýnilegu ljósi. Þessi fyrsta flokks 2,5 metra breiði sjónauki bætist við VLT sjónauka ESO á Cerro Paranal sem er framúrskarandi staður til stjörnuathugana. Sjónaukin er búinn stórri 268 megapixla myndavél sem kallast OmegaCAM sem er arftaki Wide Field Imager (WFI) myndavélarinnar á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum á La Silla.

Rétt eins og VLT sér þessi kortlagningarsjónauki vítt bylgjulengdarsvið, allt frá útfjólubláu yfir í sýnilegt ljós og niður í nær-innrautt (0,3 til 1,0 míkrómetrar). En þar sem stærstu sjónaukarnir, eins og VLT, eru aðeins færir um að rannsaka lítinn hluta af himninum í einu, er VST hannaður til að ljósmynda stór svæði hratt og kafa djúpt.

Sjónsvið VST er 1°x 1°, tvisvar sinnum breiðara en sem nemur flatarmáli fulls tungls á himninum og er því ætlað að styðja við rannsóknir VLT með víðmyndatökum, en líka til að finna og greina ný fyrirbæri sem VLT sjónaukarnir geta síðan rannsakað betur.

VST samanstendur af tveimur speglum, safnspegli (M1), sem er 265 cm breiður, og minni aukaspegli (M2) sem er 93,8 cm á breidd. Sjónaukinn er einnig útbúinn einu stóru mælitæki: OmegaCAM. Þessi risavaxna (16k x 16k pixla) CCD myndavél var smíðuð í samvinnu fimm stofnana: Netherlands Research School for Astronomy (NOVA), Kapteyn Astronomica Institute, Universitäts-Sternwarte München, Astronomical Observatory of Padova og ESO.

Vísindi með VST

VST er helgaður kortlagningarverkefnum. Sjónaukanum er ætlað að gera mikilvægar uppgötvanir á ýmsum sviðum stjarnvísinda, enda búinn fyrsta flokks myndavél, hágæða sjóntækjum og staðsettur á framúrskarandi stað á Paranal. Í reikistjörnufræðum er markmið sjónaukans að finna og rannsaka fjarlæga smáhnetti í sólkerfinu okkar á borð við útstirni, sem og að fylgjast með þvergöngum fjarreikistjarna. Flötur Vetrarbrautarinnar verður líka rannsakaður ítarlega og mun það skila stjörnufræðingum gögnum sem nauðsynleg eru til að skilja uppbyggingu og þróun Vetrarbrautarinnar. Lengra í burtu mun VST kanna nálægar vetrarbrautir, geimþokur í þeim og hringþokur í fjarlægum þyrpingum, auk þess að kortleggja dauf fyrirbæri og leita að örlinsuhrifum. Í heimsfræði mun VST beina sjónum sínum að sprengistjörnum með meðalhátt rauðvik og leggja þannig sitt af mörkum til þess að bæta fjarlægðamælingar í geimnum og skilning á útþenslu alheimsins. VST mun einnig leita að byggingum í virkum vetrarbrautakjörnum og dulstirnum með meðalhátt rauðvik til að auka skilning á myndun vetrarbrauta og þróunarsögu alheimsins.

VST er samstarfsverkefni Stjörnustöðvar Evrópulanda á suðurhveli og Capodimonte Astronomical Observatory (CAC) sem er hluti af Italian National Institute for Astrophysics (INAF). Hönnun sjónaukans fór fram í ítölsku stofnuninni en ESO hafði umsjón með verkþáttum á staðnum.

Sjónaukinn var tekinn í notkun árið 2011.

Vísindaleg markmið

Helgaður kortlagningum. Fjarlægir hnettir í sólkerfinu (útstirni). Vetrarbrautin okkar, hringþokur utan vetrarbrautarinnar, heimsfræði.

More about the VST

VST

Nafn: VLT Survey Telescope
Staðsetning: Cerro Paranal
Hæð yfir sjó: 2635 m
Hýsing: Lítil sívalningslaga bygging 
Gerð: Kortlagningarsjónauki fyrir sýnilegt ljós
Hönnun sjóntækja: Breyttur Ritchey-Chrétien spegilsjónauki með leiðréttingarlinsum
Þvermál safnspegil M1: 2,61 m
Efni safnspegils M1: Astro-Sitall
Þvermál aukaspegils M2: 0,938 m
Efni aukaspegils M2: Astro-Sitall
Stæði: Gaffalsstæði
Tekinn í notkun: 8. júní 2011
Virk sjóntæki: