Frá malarvegi til fullkomnustu stjörnustöðvar heims

From a Dirt Track to the World’s Leading Observatory (Historical)
From a Dirt Track to the World’s Leading Observatory (Present)
Dragðu græna handfangið til að sjá myndirnar

Á þessu ári fagnar ESO fimmtíu ára afmæli sínu. Til að fagna því sýnum við ykkur svipmyndir af sögu okkar. Einu sinni í mánuði árið 2012 verður mynd vikunnar tileinkuð sérstökum „þá og nú“ samanburði sem sýnir hvernig hlutirnir hafa breyst undanfarna áratugi í La Silla og Paranal stjörnustöðvunum, skrifstofum ESO í Santiago í Chile og höfuðstöðvunum í Garching bei München í Þýskalandi.

Á þessum myndum sést útsýnið frá innganginum að Paranal stjörnustöðinni í norðpur Chile. Horft er í átt að tindi Cerro Paranal eins og hann kom fyrir sjónir árið 1987 og eins og hann lítur út í dag.

Árið 1983 var Cerro Paranal svæðið fyrst kannað sem möguleg staðsetning Very Large Telescope (VLT) en í hópi þeirra sem rannsökuðu svæðið var þáverandi framkvæmdarstjóri ESO, Lodewijk Woitjer (sjá The Messenger nr. 64, bls. 5-8 fyrir frekari upplýsingar). Árið 1987 var malarvegur lagður upp á fjallið og varanleg athugunarstöð komið fyrir sem fylgdist með aðstæðum. Á gömlu myndinni sést hvernig svæðið leit út á þeim tíma.

Niðurstöður mælinganna voru mjög góðar — aðstæðurnar voru betri en á La Silla og öðrum stað sem einnig var til skoðunar. Niðurstöðurnar leiddu til þess að ESO ráðið ákvað í desember árið 1990 að byggja VLT sjónaukann á Paranal (sjá eso9015).

Á þeim 25 árum sem liðin eru frá því að gamla myndin var tekin hefur ótalmargt breyst á Paranal. Fjallstindurinn var jafnaður, malbikaður vegur lagður og að sjálfsögðu var sjónaukunum komið upp. Á nýju myndinni sést stjörnustöðin fullkláruð og starfandi. Á tindinum standa nú fjórir 8,2 metra sjónaukar VLT, auk fjögurra smærri 1,8 metra hjálparsjónauka sem notaðir eru í víxlmælingar og 2,6 metra VLT Survey Telescope. Við hliðið hafa margar byggingar risið í grunnbúðum stjörnustöðvarinnar. Eldri mynd vikunnar potw1230 gefur okkur annað sjónarhorn á þær.

Tenglar

Mynd/Myndskeið

ESO