E-ELT

Stærsta auga jarðar

Um heim allan eru risasjónaukar forgangsverkefni stjörnufræðinga. Þeir munu auka þekkingu okkar á alheiminum til muna og gera okkur kleift að rannsaka náið fjarreikistjörnur, fyrstu stjörnurnar sem mynduðust í alheiminum, risasvarthol í miðju vetrarbrauta, eðli og dreifingu hulduefnisins og hulduorkuna sem ræður ríkjum í alheiminum.

Artist impression of the E-ELTFrá árslokum 2005 hefur ESO í samvinnu við evrópska stjarnvísindamenn unnið að nýjum risasjónauka sem taka á í notkun skömmu fyrir lok þessa áratugar. Yfir 100 stjörnufræðingar, frá öllum löndum Evrópu, hafa verið viðriðnir verkefnið frá árinu 2006. Þeira hafa verið verkefnastjórum ESO innan handar við að þróa hugmyndina að risasjónauka þar sem framkvæmd, kostnaður, verkáætlun og öll áhætta var metin af kostgæfni.

Risasjónaukinn nefnist European Extremely Large Telescope eða E-ELT. Sjónaukinn verður „stærsta auga jarðar“ með um 39 metra spegilþvermál og því stærsti stjörnusjónauki heims sem hugsaður er fyrir rannsóknir á sýnilegu og nær-innrauðu ljósi.

Vísindarannsóknir með E-ELT

Áætlað er að vísindarannsóknir hefjist snemma næsta áratug. Sjónaukinn mun kljást við helstu stjarnvísindalegu álitaefni okkar tíma og leita að reikistjörnum á borð við jörðina í lífbeltum annarra sólstjarna þar sem líf gæti þrifist. Sjónaukinn á einnig að rannsaka eiginleika fyrstu stjarnanna sem mynduðust í alheiminum og kanna eðli hulduefnisins og hulduorkunnar. Stjörnufræðingar búa sig líka undir að nýjar og ófyrirséðar spurningar spretti upp samfara uppgötvunum E-ELT.

Vísindaleg markmið

Almennur sjónauki með stóran safnspegil fyrir sýnilegt/innrautt ljós. Sum rannsóknarsvið verða vetrarbrautir með hátt rauðvik, stjörnumyndun, fjarreikistjörnur og sólkerfi í mótun.

Vinsamlegast notaðu efnisyfirlitið hér undir til að lesa meira:

Ef þú vilt vita (næstum) allt um þetta spennandi verkefni getur þú nálgast ítarlegri upplýsingar á verkefnissíðu E-ELT.

Fleiri myndir og myndskeið er að finna í margmiðlunarsafni ESO.