Sjónaukar og mælitæki

ESO veitir evrópskum stjörnufræðingum framúrskarandi aðstöðu og stuðlar að samstarfi í stjarnvísindarannsóknum líkt og stofnunarsamningurinn segir til um. Í dag starfrækir ESO nokkrar stærstu og öflugustu stjörnustöðvar heims á þremur stöðum í norðurhluta Chile: La Silla, Paranal og Chajnantor. Eru þetta allt þeir staðir sem heppilegastir eru til stjörnuathugana á suðurhveli. ESO hefur einnig umsjón með verkefnum sem lúta að tækniþróun, ráðstefnuhaldi og eflingu menntunar og leikur lykilhlutverk í mótun Evrópska rannsóknarsvæðisins í stjörnufræði og stjarneðlisfræði.

Stjörnustöðin á Paranal

Very Large Telescope (VLT) á Cerro Paranal eru aðalsjónaukar ESO til rannsókna á sýnilegu og innrauðu ljósi. Sjónaukarnir fjórir eru 8,2 metra breiðir og á hverjum og einum er fjöldi mælitækja.

Hægt er að tengja VLT sjónaukana fjóra saman og mynda þannig víxlmæli sem safnar ljósinu frá þeim í einn punkt. Þannig er hægt að taka ljósmyndir með greinigæði upp á millíbogasekúndur og gera stjarnmælingar með 10 míkróbogasekúndna nákvæmni. Hægt er að bæta myndgæðin enn frekar með fjórum 1,8 metra breiðum hjálparsjónaukum (Auxilliary Telescopes (AT)).

Í Paranal-stjörnustöðinni eru tveir sjónaukar notaðir til að kortleggja himininn. VLT Survey Telescope (VST, 2,6 metra spegilþvermál) er notaður til kortlagningar í sýnilegu ljósi og Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy (VISTA, 4 mera spegilþvermál) fyrir kortlagningu í sýnilegu og innrauðu ljósi.

Sjá VLT á Google Maps og myndir frá almenningi.

Stjörnustöðin á La Silla

stjörnustöðinni á La Silla starfrækir ESO þrjá stóra stjörnusjónauka (3,6 metra sjónauka, New Technology Telescope (NTT) og 2,2 metra Max Planck-ESO sjónaukann). Allir eru þeir útbúnir mælitækjum í hæsta gæðaflokki.

Sjá La Silla á Mapas Google og myndir frá almenningi.APEX

Atacama Pathfinder Experiment (APEX) er samstarfsverkefni Stofnunar Max Planck í útvarpsstjörnufræði (MPIfR), sem á 50% í sjónaukanum, Onsala Space Observatory (OSO), sem á 23% hlut og European Southern Observatory (ESO), sem á 27% hlut. APEX er útvarpssjónauki, frumgerð ALMA loftnetanna, í 5100 metra hæð á Llano de Chajnantor. Sjónaukinn var smíðaður hjá VERTEX Antennatechnik í Duisburg í Þýskalandi. Á APEX eru nokkrir fjölþátta litrófsmælar (örbylgjumælar) og alrófsmælir með vítt sjónsvið sem mæla bylgjulengdir á bilinu 0,2 til 1,4 mm. ESO hefur umsjón með starfsemi sjónaukans.

Sjá Chjanantor á Google Maps og myndir frá almenningi.