Fréttatilkynningar

Gerstu áskrifandi að fréttapóstlista
eso1137is — Fréttatilkynning
ALMA opnar augun
3. október 2011: Flóknasta stjörnustöð mannkyns á jörðu niðri, Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), hefur formlega verið tekin í notkun. Þótt sjónaukinn sé enn í smíðum sýnir fyrsta mynd hans alheim sem hvorki sést í sýnilegu né innrauðu ljósi. Mörg þúsund vísindamenn frá öllum heimshornum hafa keppst um að vera meðal þeirra fyrstu sem fá tækifæri til að kanna dimmustu, köldustu, fjarlægustu og best földu svæði alheims með þessum nýja sjónauka.
eso1136is — Fréttatilkynning
Spælt augnakonfekt
28. september 2011: Stjörnufræðingar hafa notað Very Large Telescope ESO og tekið mynd af risavaxinni stjörnu sem fellur í einn sjaldgæfasta flokk stjarna í alheiminum, gulra reginrisa. Nýja myndin er sú besta sem tekin hefur verið af stjörnu í þessu flokki og sýnir í fyrsta sinn tvær stórar rykskeljar sem umlykja reginrisann í miðjunni. Stjarnan og skeljarnar minna óneitanlega á eggjahvítu í kringum eggjarauðu en einmitt þess vegna gáfu stjörnufræðingar henni nafnið Spæleggsþokan.
eso1135is — Fréttatilkynning
Bálreiður fugl á himnum
21. september 2011: Hér sést Lambda Centauri þokan, glóandi vetnisský og þyrping nýmyndaðra stjarna í stjörnumerkinu Mannfáknum, á mynd sem tekin var með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum. Þokan er einnig þekkt sem IC 2944 en er stundum kölluð Kjúklingaþokan því margt fólk telur sig sjá fugl í björtustu svæðum hennar.
eso1134is — Fréttatilkynning
HARPS finnur 50 fjarreikistjörnur
12. september 2011: Í dag tilkynntu stjörnufræðingar sem notað hafa HARPS mælitæki ESO, um uppgötvun á yfir 50 áður óþekktum fjarreikistjörnum, þar á meðal 16 risajörðum en af þeim er ein við brún lífbeltisins í sínu sólkerfi. Stjörnufræðingarnir hafa rannsakað eiginleika allra reikistjarna sem fundist hafa hingað til með HARPS og fundið út að um 40% stjarna sem svipar til sólarinnar búa yfir að minnsta kosti einni reikistjörnu sem er léttari en Satúrnus.
eso1133is — Fréttatilkynning
Ungar stjörnur baða sig í sviðsljósinu
7. september 2011: New Technology Telescope (NTT) ESO hefur tekið glæsilega mynd af lausþyrpingunni NGC 2100. Þessi bjarta stjörnuþyrping er um 15 milljón ára gömul og að finna í Stóra Magellansskýinu sem er nálæg fylgivetrarbraut okkar eigin vetrarbrautar. Í kringum þyrpinguna er glóandi gas Tarantúluþokunnar sem er skammt frá.
eso1132is — Fréttatilkynning
Stjarnan sem ætti ekki að vera til
31. ágúst 2011: Hópur evrópskra stjörnufræðinga hefur með hjálp Very Large Telescope (VLT) ESO fundið stjörnu í vetrarbrautinni okkar sem margir töldu að gæti ekki verið til. Stjörnufræðingarnir komust að því að stjarnan er næstum eingöngu úr vetni og helíni og inniheldur önnur frumefni í ótrúlega litlu magni. Þessi efnasamsetning þýðir að stjarnan er á „forboðna svæðinu“ í kenningum um myndun stjarna, hún hefði í raun aldrei átt að geta orðið til. Greint er frá þessum niðurstöðum í nýjasta hefti tímaritsins Nature sem kom út 1. september 2011.
eso1131is — Fréttatilkynning
VLT horfir í augu meyjunnar
24. ágúst 2011: Þessa glæsilegu mynd af fallegu en óvenjulegu vetrarbrautapari sem kallað hefur verið Augun, var tekin með Very Large Telescope ESO. Stærri vetrarbrautin, NGC 4438, var eitt sinn þyrilþoka en hefur afmyndast vegna árekstra við aðrar vetrarbrautir á síðustu nokkur hundruð milljónum ára. Þetta er fyrsta myndin í Cosmic Gems verkefni ESO, framtaki sem ESO hefur veitt tíma í sjónaukum samtakanna í þeim tilgangi að miðla vísindum til almennings.
eso1130is — Fréttatilkynning
Risvaxinn geimhnoðri glóir að innan
17. ágúst 2011: Rannsóknir sem gerðar voru með Very Large Telescope ESO hafa varpað ljósi á uppruna mikillar orku sem berst úr stóru en sjaldgæfu glóandi gasskýi snemma í sögu alheimsins. Í fyrsta sinn hafa athuganir sýnt að orkan sem kemur frá risavöxnum „Lyman-alfa hnoðra“ — einum stærstu stöku fyrirbærum sem vitað er um í alheiminum — megi rekja til vetrarbrauta í miðju hans. Niðurstöðurnar eru birtar í nýjasta hefti tímaritsins Nature sem kom út 18. ágúst.
eso1129is — Fréttatilkynning
Þyrilþoka í Ljóninu
10. ágúst 2011: Hér sést þyrilþokan NGC 3521 sem er í um 35 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Ljóninu á mynd sem tekin var með Very Large Telescope ESO. Vetrarbrautin er um 50.000 ljósár á breidd og geymir bjartan og þéttan kjarna sem er umlukinn fallegum þyrilörmum.
eso1128is — Fréttatilkynning
VISTA finnur 96 stjörnuþyrpingar faldar á bakvið ryk
3. ágúst 2011: Í gögnum VISTA sem er innrauður kortlagningarsjónauki ESO í Paranal stjörnustöðinni, hefur alþjóðlegur hópur stjörnufræðinga fundið 96 nýjar lausþyrpingar faldar á bakvið ryk í vetrarbrautinni okkar. Þyrpingarnar eru allar litlar og daufar og sáust því ekki í eldri kortlagningum. Þær sáust hins vegar greinilega með næmum innrauðum mælitækjum stærsta kortlagningarsjónauka heims. Þetta er í fyrsta sinn sem svo margar litlar og daufar þyrpingar hafa fundist í einu vetfangi.
eso1127is — Fréttatilkynning
Evrópskt ALMA loftnet færir heildarfjölda loftneta á Chajnantor upp í 16
28. júlí 2011: Þann 27. júlí 2011 náði fyrsta evrópska loftnetið í Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) nýjum hæðum er það var flutt upp í starfsstöð sjónaukans á Chajnantor sléttunni sem er í 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli. Loftnetið er 12 metra breitt og bætist í hóp fimmtán annarra loftneta sem alþjóðlegir aðstandendur ALMA verkefnisins hafa lagt til. Loftnetin eru því orðin 16 talsins.
eso1126is — Fréttatilkynning
VST skoðar Ljónsþríeykið og enn fjarlægari fyrirbæri
27. júlí 2011: ESO hefur birt nýja og stóra mynd sem tekin var með OmegaCAM á VLT Survey Telescope (VST) í Paranal stjörnustöð ESO. Á henni sést bjart vetrarbrautaþríeyki í stjörnumerkinu Ljóninu en daufu fyrirbærin í bakgrunni vekja þó meiri athygli stjörnufræðinga en vetrarbrautirnar í forgrunni. Mynd VST af þessum daufu fyrirbærum er til vitnis um getu sjónaukans og OmegaCAM til að kortleggja fjarlæg fyrirbæri í alheiminum.
eso1125is — Fréttatilkynning
Stjarnfræðileg risabóla
20. júlí 2011: Þessi fallega mynd er af geimþoku umhverfis stjörnuþyrpinguna NGC 1929 í Stóra Magellansskýinu, fylgivetrarbraut okkar. Myndin var tekin með Very Large Telescope. Þokan sem yfirgnæfir þetta stjörnumyndunarsvæði er geysistórt dæmi um það sem stjörnufræðingar nefna risabólur. Bólan myndaðist af völdum vinda frá ungum, björtum stjörnum og höggbylgna frá sprengistjörnum.
eso1124is — Fréttatilkynning
Hvað virkjar risasvarthol?
13. júlí 2011: Ný rannsókn sem byggir á gögnum frá Very Large Telescope ESO og XMM-Newton röntgengeimsjónauka ESA hefur leitt nokkuð mjög óvænt í ljós: Flest þau risasvarthol sem sést hafa í miðjum vetrarbrauta á síðustu 11 milljörðum ára, urðu ekki virk af völdum samruna vetrarbrauta eins og áður var talið. Það kemur mjög á óvart.
eso1123is — Fréttatilkynning
Vetnisperoxíð fundið í geimnum
6. júlí 2011: Í fyrsta sinn hafa vetnisperoxíðssameindir fundist í geimnum. Með uppgötvuninni fást vísbendingar um efnafræðileg tengsl milli tveggja sameinda sem eru lífi nauðsynlegar: Vatns og súrefnis. Á jörðinni leikur vetnisperoxíð lykilhlutverk í efnafræði vatns og ósons í lofthjúpi jarðar en margir kannast við sameindina í sótthreinsiefnum eða bleikiefnum. Nú hafa stjörnufræðingar fundið sameindina í geimnum með hjálp APEX sjónaukans sem ESO starfrækir í Chile.
eso1122is — Fréttatilkynning
Fjarlægasta dulstirni sem fundist hefur
29. júní 2011: Hópur evrópskra stjörnufræðinga hefur með hjálp Very Large Telescope ESO og nokkurra annarra sjónauka, fundið og rannsakað fjarlægasta dulstirni sem fundist hefur hingað til. Þetta fyrirbæri er knúið áfram af tveggja milljarða sólmassa svartholi og er langbjartasta fyrirbæri sem fundist hefur í hinum unga alheimi til þessa. Greint er frá þessu í nýjasta hefti tímaritsins Nature sem kemur út 30. júní 2011.
eso1121is — Fréttatilkynning
Logar Betelgáss
23. júní 2011: Stjörnufræðingar hafa notað VISIR mælitækið á Very Large Telescope (VLT) ESO til að ljósmynda margslungna og bjarta þoku umhverfis reginrisastjörnuna Betelgás í meiri smáatriðum en nokkru sinni fyrr. Þokan minnir á loga sem stíga út úr stjörnunni og varð til þegar risastjarnan varpaði frá sér efni út í geiminn.
eso1120is — Fréttatilkynning
Árekstur vetrarbrautaþyrpinga grannskoðaður
22. júní 2011: Hópur stjarnvísindamanna hefur rannsakað vetrarbrautaþyrpinguna Abell 2744 sem nefnd hefur verið Pandóru þyrpingin. Stjörnufræðingarnir hafa með hjálp geimsjónauka og sjónauka á jörðu niðri, þar á meðal Very Large Telescope ESO og Hubblessjónaukanum, dregið upp mynd af sögu þyrpingarinnar sem er bæði ofsafengin og flókin. Svo virðist sem Abell 2744 sé afleiðing áreksturs fjögurra vetrarbrautaþyrpinga í einu og hefur hann haft skringileg áhrif í för með sér sem hafa aldrei sést áður í einni þyrpingu.
eso1119is — Fréttatilkynning
Fyrstu myndir VLT Survey Telescope
8. júní 2011: Fyrstu myndir VLT Survey Telescope (VST), nýjustu viðbótarinnar við stjörnustöð ESO á Paranal, hafa verið birtar og eru óhemju glæsilegar. VST er 2,6 metra breiður sjónauki í hæsta gæðaflokki. Hann er útbúinn stórri 268 megapixla myndavél, OmegaCAM, sem gerir honum kleift að kortleggja himininn hratt en jafnframt eru gæði myndanna mikil. Sjónaukinn greinir sýnilegt ljós og bætir þess vegna upp athuganir VISTA, innrauða kortlagningarsjónauka ESO. Nýjar myndir af Omegaþokunni og kúluþyrpingunni Omega Centauri bera gæðum VST fagurt vitni.
eso1118is — Fréttatilkynning
Póstkort utan úr geimnum?
1. júní 2011: Stjörnufræðingar ESO hafa notað Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum til að taka einkar laglega mynd af NGC 6744. Þessi fallega þyrilþoka er í um 30 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Páfuglinum. Þyrilþokan líkist mjög okkar eigin vetrarbraut. Myndin gæti því sem næst verið póstkort af vetrarbrautinni okkar sem fjarlægur vinur okkar utan úr geimnum hefur tekið og sent okkur.
Niðurstöður 161 til 180 af 259