Fréttatilkynningar 2012

Subscribe to receive news from ESO in your language!
eso1233is — Fréttatilkynning
Ceci N’est Pas Une Pipe
15. ágúst 2012: Rétt eins og þegar René Magritte skrifaði „Þetta er ekki pípa“ á frægt málverk sitt, er þessi mynd heldur pípa. Hún sýnir hluta af stóru rykskýi í geimnum sem kallast Pípuþokan. Þessi nýja mynd er af því sem einnig kallast Barnard 59 en hún var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í stjörrnustöð ESO í La Silla. Fyrir tilviljun birtist myndin á 45 ára ártíð málarans.
eso1232is — Fréttatilkynning
Veldu það sem VLT skoðar og Tístaðu þig í heimsókn til VLT!
8. ágúst 2012: ESO byggir og starfrækir marga af öflugustu sjónaukum heims, þar á meðal Very Large Telescope (VLT) í Paranal stjörnustöðinni. Með þessum risavélum höfum við gert margar heillandi uppgötvanir um alheiminn. Nú, í fyrsta sinn í sögu sjónaukans, getur þú ákveðið hvert beina á augum VLT eða unnið frábæra ferð til Atacamaeyðimerkurinnar í Chile og aðstoðað sjálf(ur) við myndatökuna.
eso1231is — Fréttatilkynning
Blár svelgur í Fljótinu
1. ágúst 2012: Vetrarbrautin NGC 1187 prýðir þessa nýju mynd sem tekin var með Very Large Telescope ESO. Þessi fallega þyrilvetrarbraut er í um 60 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Fljótinu. Í NGC 1187 hafa orðið tvær sprengistjörnur síðastliðin þrjátíu ár, síðast árið 2007. Þessi mynd af vetrarbrautinni er sú nákvæmasta sem tekin hefur verið.
eso1230is — Fréttatilkynning
Björtustu stjörnurnar lifa sjaldnast einar
26. júlí 2012: Ný rannsókn, þar sem stuðst var við gögn frá Very Large Telescope (VLT) ESO, sýnir að flestar björtustu og massamestu stjörnur alheims, sem knýja áfram þróun vetrarbrauta, verja jafnan ævi sinni með annarri stjörnu. Næstum þrír fjórðu þessara stjarna eiga sér mjög nána förunauta sem er miklu meira en áður var talið. Í flestum pörunum ríkir sundrandi víxlverkun milli stjarnanna, þ.e.a.s. efni flyst frá einni stjörnu til hinnar, auk þess sem talið er að einn þriðji muni að lokum renna saman í eina stjörnu, sem kemur á óvart. Greint er frá þessum niðurstöðum í tímaritinu Science sem kom út 27. júlí 2012.
eso1229is — Fréttatilkynning
APEX tekur þátt í skörpustu mælingum sem gerðar hafa verið
18. júlí 2012: Alþjóðlegur hópur stjörnufræðinga hefur rannsakað hjarta fjarlægs dulstirnis með meiri skerpu en nokkru sinni fyrr, eða tveimur milljón sinnum meiri en mannsaugað. Mælingarnar voru gerðar með því að tengja Atacama Pathfinder Experiment (APEX) sjónaukann [1] saman við tvo aðra sjónauka í annarri heimsálfu. Þetta er í fyrsta sinn sem þetta hefur verið gert og er mikilvægur áfangi í átt að markmiðum „Event Horizon Telescope“ verkefnisins [2]: Að taka mynd af risasvartholum í miðju okkar vetrarbrautar og öðrum.
eso1228is — Fréttatilkynning
Stjörnufræðingar sjá dimmar vetrarbrautir frá árdögum alheims í fyrsta sinn
11. júlí 2012: Í fyrsta sinn hafa stjörnufræðingar greint dimmar vetrarbrautir frá árdögum alheimsins. Þessi fyrirbæri — sem eru gasríkar vetrarbrautir án stjarna — marka fyrstu stigin í myndun vetrarbrauta sem kenningar stjörnufræðinga spá fyrir um en hafa aldrei sést fyrr en nú. Með hjálp Very Large Telescope ESO, hefur alþjóðlegum hópi stjörnufræðinga tekist að sjá þessi daufu fyrirbæri með því að greina bjarmann sem þau gefa frá sér þegar dulstirni lýsa þau upp.
eso1227is — Fréttatilkynning
Ný leið til að kanna lofthjúpa fjarreikistjarna
27. júní 2012: Í fyrsta sinn hafa stjörnufræðingar notað nýja og snjalla tækni til að rannsaka lofthjúp fjarreikistjörnu í smáatriðum — jafnvel þó hún gangi ekki fyrir móðurstjörnuna. Alþjóðlegt teymi stjörnufræðinga notaði Very Large Telescope ESO til að greina með beinum hætti, dauft ljós frá reikistjörnunni Tau Boötis b. Stjörnufræðingarnir rannsökuðu lofthjúp reikistjörnunnar og mældu braut hennar og massa nákvæmlega í fyrsta sinn og leystu um leið 15 ára gamla ráðgátu. Hópurinn komst óvænt að því, að efri lög lofthjúpsins eru kaldari en búist var við. Niðurstöðurnar verða birtar í tímaritinu Nature sem kemur út 28. júní 2012.
eso1226is — Fréttatilkynning
VLT skoðar NGC 6357
20. júní 2012: Very Large Telescope (VLT) ESO hefur tekið nákvæmustu myndina hingað til af hluta glæsilegs stjörnumyndunarsvæðis sem nefnist NGC 6357. Á myndinni sést fjöldi heitra, ungra stjarna, glóandi gasský og furðulegar rykmyndanir sem útfjólublátt ljós og stjörnuvindar hafa mótað.
eso1225is — Fréttatilkynning
ESO byggir stærsta auga jarðar
11. júní 2012: ESO mun byggja stærsta stjörnusjónauka jarðar fyrir sýnilegt og innrautt ljós. Á fundi sínum í Garching í dag, lagði ESO ráðið blessun sína yfir European Extremely Large Telescope (E-ELT) verkefnið, að áskildu samþykki [1] fjögurra aðildarríkja. E-ELT verður tekinn í notkun snemma næsta áratug.
eso1224is — Fréttatilkynning
Spánarkonungur heimsækir Paranal stjörnustöð ESO
7. júní 2012: Miðvikudaginn 6. júní heimsótti hans hátign Jóhann Karl I. Spánarkonungur Paranal stjörnustöð ESO þar sem hann hitti forseta Chile, Kólumbíu, Mexíkó og Perú og aðra embættismenn sem sóttu fjórða fund Kyrrahafsbandalagsins í Paranal stjörnustöðinni.
eso1223is — Fréttatilkynning
Fjórði fundur Kyrrahafsbandalagsins fer fram í Paranal stjörnustöð ESO
6. júní 2012: Í dag hittust forsetar Chile, Kólumbíu, Mexíkó og Perú í Paranal stjörnustöð ESO í Atacamaeyðimörkinni í Chile og skoðuðu sjónauka og aðra hátækni í hæsta gæðaflokki í helstu stjörnustöð ESO. Forsetarnir komu saman í Paranal stjörnustöðinni í tilefni af fjórða fundi Kyrrahafsbandalagsins þar sem rammaáætlun bandalagsins var undirrituð.
eso1222is — Fréttatilkynning
ALMA beinir sjónum sínum að Centaurus A
31. maí 2012: Ný mynd Atacama Large Millimeter/submillimeter Telescope af miðju vetrarbrautarinnar Centaurus A, sýnir vel hvernig þessi nýi sjónauki gerir stjörnufræðingum kleift að sjá í gegnum ryk, sem alla jafna er ógegnsætt og hylur miðju vetrarbrautarinnar, í meiri smáatriðum en nokkru sinni fyrr. Þótt ALMA sé enn í smíðum og að gera sínar fyrstu mælingar, er hún þegar öflugasti sjónauki sinnar tegundar í heiminum. Nýverið var óskað eftir tillögum fyrir næstu mælingar sjónaukans þegar greinigeta hans verður enn meiri.
eso1221is — Fréttatilkynning
Dýpri mynd af Centaurus A
16. maí 2012: Vetrarbrautin furðulega Centaurus A sést hér á nýrri mynd Stjörnustöðvar Evrópulanda á suðurhveli. Heildarlýsingartíminn nam 50 klukkustundum svo hér er að öllum líkindum um að ræða dýpstu mynd sem til er af þessu skrítna en glæsilega fyrirbæri. Myndin var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile.
eso1220is — Fréttatilkynning
VISTA skoðar stóra kúluþyrpingu
9. maí 2012: Á nýrri mynd VISTA, innrauða kortlagningarsjónauka ESO, af Messier 55 sjást tugir þúsunda stjarna þyrpast saman eins og býflugnasvermur. Stjörnurnar eru ekki aðeins þétt saman á tiltölulega litlu svæði heldur eru þær meðal hinna elstu í alheiminum. Stjörnufræðingar rannsaka Messier 55 og aðrar gamlar kúluþyrpingar til að átta sig á þróun vetrarbrauta og því hvernig stjörnur eldast.
eso1219is — Fréttatilkynning
Horft inn í ryk í belti Óríons
2. maí 2012: Á nýrri mynd af svæðinu í kringum endurskinsþokuna Messier 78, sem er skammt norður af Sverðþokunni í Óríon, sjást ský úr geimryki sem þræða sig í gegnum þokuna líkt og perlufesti. Mælingarnar voru gerðar með Atacama Pathfinder Experiment (APEX) sjónaukanum [1] en þær sýna varmageislun rykagnanna og hjálpa stjörnufræðingum að sjá hvar nýjar stjörnur eru að myndast.
eso1218is — Fréttatilkynning
Þyrping innan í þyrpingu
25. apríl 2012: Þessi nýja mynd af stjörnuþyrpingunni NGC 6604 var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Þyrpingin hverfur gjarnan í skuggann af nágranna sínum, Arnarþokunni, sem er aðeins eitt vænghaf eða svo í burtu. Þessi mynd sýnir aftur á móti vel hve fögur NGC 6604 er út af fyrir sig innan um landslag gas- og rykskýja.
eso1217is — Fréttatilkynning
Kenningar um hulduefni í alvarlegum vanda?
18. apríl 2012: Engar vísbendingar fundust um hulduefni á stóru svæði umhverfis sólina í nákvæmustu rannsókn sem gerð hefur verið hingað til af hreyfingum stjarna í vetrarbrautinni okkar. Stjörnufræðingar áttu von á að nágrenni sólar væri uppfullt af hulduefni, dularfullu ósýnilegu efni sem einungis er hægt að greina út frá þyngdartogi þess, samkvæmt þeim kenningum sem njóta mestrar hylli. Ný rannsókn stjörnufræðinga í Chile sýna að þessar kenningar koma ekki heim og saman við niðurstöður mælinga. Þetta gæti þýtt að tilraunir manna til að greina hulduefnisagnir með beinum hætti séu ekki vænlegar til árangurs.
eso1216is — Fréttatilkynning
ALMA sér nálægt sólkerfi í mótun
12. apríl 2012: Ný stjörnustöð sem er enn í smíðum hefur veitt stjörnufræðingum mikilvægar upplýsingar um nálægt sólkerfi og hvernig slík kerfi myndast og þróast. Stjörnufræðingarnir notuðu Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) og komust að því að reikistjörnur á braut um stjörnuna Fomalhaut hljóti að vera mun smærri en áður var talið. Þetta eru fyrstu vísindalegu niðurstöðurnar sem berast frá ALMA úr fyrstu mælilotu sem er opin fyrir stjörnufræðinga um allan heim.
eso1215is — Fréttatilkynning
ESO stækkar höfuðstöðvar sínar
4. apríl 2012: Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli (ESO) hefur ráðið arkitektastofuna Auer+Weber til að hanna nýjar höfuðstöðvar sínar í Garching við München í Þýskalandi. Í þessari nýstárlegu byggingu verður starfslið samtakanna í Garching, sem fer fjölgandi, hýst auk þess sem þróun nýrrar tækni í metnaðarfull verkefni ESO á borð við European Extremely Large Telescope fer fram. Búist er við að byggingin verði tilbúin fyrir árslok 2013 og muni hafa mikil áhrif á vöxt rannsóknasvæðisins í Garching.
eso1214is — Fréttatilkynning
Milljarðar bergreikistjarna í lífbeltum rauðra dverga í vetrarbrautinni okkar
28. mars 2012: Nýjar niðurstöður HARPS mælitækisins sýna að bergreikistjörnur sem eru örlítið stærri en jörðin, eru mjög algengar í lífbeltum rauðra dvergstjarna. Alþjóðlegur hópur stjörnufræðinga hefur áætlað að í vetrarbrautinni okkar séu tugir milljarða reikistjarna af þessu tagi og líklega eitt hundrað í næsta nágrenni sólar. Þetta er í fyrsta sinn sem fjöldi risajarða á braut um rauða dverga er áætlaður með beinum hætti en rauðir dvergar telja um 80% stjarna í vetrarbrautinni okkar.
Niðurstöður 21 til 40 af 53