Fréttatilkynningar

Subscribe to receive news from ESO in your language!
eso1507is — Fréttatilkynning
Þrívíð djúpmynd af alheiminum
26. febrúar 2015: Stjörnufræðingar hafa náð bestu þrívíðu myndinni af alheiminum til þessa með MUSE mælitækinu á Very Large Telescope ESO. Tækið starði á Hubble Deep Field South svæðið í aðeins 27 klukkustundir en þrátt fyrir það sýndu mælingar þess fjarlægðir, hreyfingu og aðra eiginleika mun fleiri vetrarbrauta en áður hefur tekist á þessu agnarsmáa svæði á himninum. Mælingarnar betrumbæta eldi athuganir Hubblessjónaukans og sýna áður óséð fyrirbæri.
eso1506is — Fréttatilkynning
Undarlegt hvarf dvergs
18. febrúar 2015: Fyrir skömmu var SPHERE mælitækið nýja á Very Large Telescope ESO notað í leit að brúnum dverg sem búist var við að væri á braut um óvenjulegt tvístirni, V471 Tauri. Með SPHERE náðu stjörnufræðingar bestu myndum sem náðst hafa til þess af nágrenni þessa áhugaverða fyrrbæris en á þeim fannst ekki neitt. Þetta undarlega hvarf brúna dvergsins þýðir að viðtekna skýringin á sérkennilegri hegðun V471 Tauri er röng. Greint er frá þessum óvæntu niðurstöðum í fyrstu birtu ritrýndu greininni um mælingar með SPHERE.
eso1505is — Fréttatilkynning
Dauðadæmt stjörnupar
9. febrúar 2015: Stjörnufræðingar sem notuðu sjónauka ESO auk sjónauka á Kanaríeyjum, hafa fundið tvær óvenju efnismiklar stjörnur í miðju hringþokunnar Henize 2-428. Stjörnurnar snúast hvor um aðra og eru smám saman að nálgast svo að eftir 700 milljón ár munu þær renna saman í eina og springa. NIðurstöðurnar verða birtar í vefútgáfu tímaritsins Nature hinn 9. febrúar 2015.
eso1504is — Fréttatilkynning
VISTA horfir í gegnum Vetrarbrautina
4. febrúar 2015: Á þessari mynd sem tekin var með VISTA kortlagningarsjónauka ESO sést hin fræga Þríklofnaþoka í nýju og draugalegu ljósi. Með hjálp innrauðs ljóss geta stjörnufræðingar séð í gegnum rykið í miðfleti Vetrarbrautarinnar og komið auga á ótalmörg fyrirbæri sem alla jafna eru hulin sjónum okkar. Á svæðinu sem hér sést, sem er lítill hluti af kortlagningarverkefni VISTA, hafa fundist tvær áður óþekktar og mjög fjarlægar sveiflustjörnur sem kallast sefítar, nánast beint fyrir aftan þokuna. Þær eru fyrstu stjörnurnar af þessari gerð sem fundist hafa hingað til í miðfleti Vetrarbrautarinnar, handan við miðbunguna.
eso1503is — Fréttatilkynning
Í gini skepnunnar
28. janúar 2015: Á þessari nýju mynd frá Very Large Telescope ESO glóir halastjörnuhnoðrin CG4 dauflega og minnir um margt á gapandi munn risavaxinnar himneskrar veru. Þótt þokan virðist stór og björt á myndinni er hún í raun mjög dauf og erfið viðureignar fyrir stjörnuáhugafólk. Enn er ekki vitað hvers eðlis CG4 er raunverulega.
eso1502is — Fréttatilkynning
Nýir sjónaukar til fjarreikistjörnuleitar teknir í notkun á Paranal
14. janúar 2015: Next-Generation Transit Survey (NGTS) sjónaukarnir hafa verið teknir í notkun í Paranal stjörnustöð ESO í Chile. Verkefnið snýst um leit að reikistjörnum utan sólkerfisins sem ganga fyrir móðurstjörnur sínar og valda þannig tímabundinni birtuminnkun á ljósi stjarnanna sem síðan er hægt að mæla með góðum mælitækjum. Leitinni verður einkum beint að reikistjörnum á stærð við Neptúnus, eða minni, þ.e. reikistjörnunum sem eru milli tvisvar til átta sinnum breiðari en Jörðin.
eso1501is — Fréttatilkynning
Hvað varð um allar stjörnurnar?
7. janúar 2015: Á þessari nýju mynd frá ESO er sem margar stjörnur vanti. Dökka geilin í glitrandi stjörnumergðinni er þó ekki geil heldur svæði í geimnum sem uppfullt er af gasi og ryki. Skýið dimma er kallað LDN 483 sem stendur fyrir Lynds Dark Nebula 483. Ský sem þessi eru fæðingarstaðir stjarna. Myndin var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO í Chile.
eso1441is — Fréttatilkynning
Heitu bláu stjörnurnar í Messier 47
17. desember 2014: Á þessari glæsilegu mynd sést stjörnuþyrpingin Messier 57 en hún var tekin með Wide Field Imager myndavélinni á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO í Chile. Þessi unga þyrping geymir áberandi bjartar bláar stjörnur sem og nokkrar rauðar risastjörnur.
eso1440is — Fréttatilkynning
Grænt ljós gefið á smíði E-ELT
4. desember 2014: ESO ráðið, æðsta stjórn ESO, samþykkti nýverið [1] að hefja smíði European Extremely Large Telescope (E-ELT) í tveimur áföngum. Gænt ljós hefur verið gefið til að ráðast í fyrri áfanga verkefnisins sem felur í sér um eins milljarðs evra fjárfestingu á smíði sjónauka sem verður að fullu starfhæfur með fjölda öflugra mælitækja og stefnt er á að taka í notkun eftir tíu ár. Sjónaukinn mun bylta rannsóknum á reikistjörnum utan okkar sólkerfis, stjörnum í nálægum vetrarbrautum og fyrirbærum í hinum fjarlæga alheimi. Á næsta ári verður gerður stærsti verktakasamningur í sögu ESO til þessa um smíði á hvolfþakinu og meginbyggingu sjónaukans.
eso1439is — Fréttatilkynning
Litríkur hópur miðaldra stjarna
26. nóvember 2014: Þessi fallega og litríka mynd af stjörnuþyrpingunni NGC 3532 var tekin með 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Sumar stjörnurnar eru skærbláar á meðan aðrar massameiri eru rauðar risastjörnur sem gefa frá sér appelsínugulan bjarma.
eso1438is — Fréttatilkynning
Dularfull uppröðun dulstirna yfir milljarða ljósára
19. nóvember 2014: Nýjar mælingar Very Large Telescope (VLT) ESO í Chile hafa leitt í ljós beinlínuröðun milli stærstu byggingareininga alheimsins. Hópur evrópskra vísindamanna hefur komist að því að snúningsásar risasvarthola í dulstirnum liggja samsíða, jafnvel þótt milljarðar ljósára skilji á milli þeirra. Stjörnufræðingarnir komust einnig að því að snúningsásar dulstirnanna hafa tilhneigingu til að vera í línu við þræðina sem mynda stórgerð alheimsins.
eso1437is — Fréttatilkynning
MUSE sviptir hulunni af vetrarbrautarárekstri
10. nóvember 2014: MUSE mælitækið nýja á Very Large Telescope (VLT) ESO hefur gefið vísindamönnum bestu myndina hingað til af gríðarmiklum árekstri í geimnum. Nýjar mælingar sýna í fyrsta sinn hreyfingu gass sem hefur rifnað út úr vetrarbrautinni ESO 137-001 sem ferðast á ógnarhraða inn í mikla vetrarbrautaþyrpingu. Niðurstöðurnar svipta hulunni af gamalli ráðgátu — hvers vegna stjörnumyndun í vetrarbrautaþyrpingum deyr út.
eso1436is — Fréttatilkynning
Byltingarkennd mynd ALMA sýnir sköpun reikistjarna
6. nóvember 2014: Á þessari nýju mynd frá ALMA, Atacama Large Millimeter/submillimeter Array, sjást meiri smáatriði en nokkru sinni fyrr í efnisskífu sem umlykur unga stjörnu. Myndin er sú skarpasta sem tekin hefur verið á hálfsmillímetra bylgjulengdum og er afrakstur fyrstu mælinga ALMA sjónaukans í því sem næst lokamynd sinni. Niðurstöðurnar marka stór þáttaskil í rannsóknum á þróun sólkerfa og myndun reikistjarna.
eso1435is — Fréttatilkynning
VLTI sér sverðbjarma í öðrum sólkerfum
3. nóvember 2014: Með því að nota víxlmælinn Very Large Telescope Interferometer hefur alþjóðlegur hópur stjarnvísindamanna uppgötvað sverðbjarma nálægt lífbeltum níu nálægra stjarna. Sverðbjarmi er ljós frá stjörnu sem endurvarpast af ryki sem myndast við árekstra smástirna og uppgufun halastjarna í sólkerfi. Tilurð svo mikils ryks á innstu svæðunum í kringum sumar stjörnur gæti komið í veg fyrir að ljósmyndir næðust af reikistjörnum á borð við Jörðina í náinni framtíð.
eso1434is — Fréttatilkynning
Flæði úr ytri efnisskífu í innri finnst í tvístirnakerfi
29. október 2014: Stjarnvísindamenn sem notuðu ALMA hafa í fyrsta sinn fundið gas- og rykstraum sem flæðir úr efnismikilli ytri skífu yfir í innri svæði tvístirnakerfis. Fyrirbæri af þessu tagi hefur aldrei sést áður og gæti átt stóran þátt í að viðhalda annarri, minni efnisskífu, sem gæti verið að mynda reikistjörnur og hefði ella horfið fyrir löngu. Helmingur stjarna á borð við sólina okkar verða til í tvístirnakerfum en það þýðir að þessi uppgötvun mun hafa töluverð áhrif á leitina að reikistjörnum utan okkar sólkerfis. Niðurstöðurnar eru birtar í tímaritinu Nature hinn 30. október 2014.
eso1433is — Fréttatilkynning
Pólland gerist aðili að Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli
28. október 2014: Í dag undirritaði prófessor Lena Kolarska-Bobińska, mennta- og vísindamálaráðherra Póllands, samþykkt um þátttöku landsins í Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli (ESO) — öfugustu stjörnustöðvar heims á jörðu niðri. ESO hlakkar til að taka á móti Póllandi sem aðildarríki eftr að samningurinn hefur verið staðfestur.
eso1432is — Fréttatilkynning
Tvær fjölskyldur halastjarna fundnar í kringum nálæga stjörnu
22. október 2014: Stjörnufræðingar hafa notað HARPS mælitækið í La Silla stjörnustöð ESO í Chile til að gera yfirgripsmestu rannsóknina hingað til af halastjörnum utan okkar sólkerfis. Hópur franskra stjarnvísindamanna rannsakaði hartnær 500 halastjörnur í kringum stjörnuna Beta Pictoris og komst að því að þær tilheyra tveimur mismunandi halastjörnufjölskyldum. Önnur fjölskyldan samanstendur af gömlum halastjörnum sem hafa oftsinnis komist í návígi við stjörnuna en hin fjölskyldan er úr yngri halastjörnum sem sennilega mynduðust við sundrun eins hnattar eða fleiri. Niðurstöðurnar verða birtar í tímaritinu Nature hinn 23. október 2014.
eso1431is — Fréttatilkynning
Byggingarsaga stórborgar í geimnum skoðuð
15. október 2014: Stjörnufræðingar notuðu nýverið APEX sjónaukann til að rannsaka risavaxna vetrarbrautaþyrpingu sem sést á myndunarstigum sínum snemma í sögu alheimsins. Mælingarnar sýna að stór hluti stjörnumyndunar í þyrpingunni er ekki aðeins falinn á bak við ryk, heldur er hún líka á óvæntu stöðum. Þetta er í fyrsta sinn sem stjörnufræðingum hefur tekist að finna öll stjörnumyndunarsvæði í fyrirbæri af þessu tagi.
eso1430is — Fréttatilkynning
Villiendur á flugi í lausþyrpingu
1. október 2014: Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO tók þessa fallegu mynd af bláleitum stjörnum í einni stærstu lausþyrpingu stjarna sem vitað er um — Messier 11, sem einnig er kölluð NGC 6705 eða Villiandarþyrpingin.
eso1429is — Fréttatilkynning
ALMA kannar uppruna skífuvetrarbrauta
17. september 2014: Um áratugaskeið hafa stjörnufræðingar álitið að samrunar vetrarbrauta leiði til myndunar sporvöluvetrarbrauta. Nú hafa vísindamenn sem notuðu ALMA og nokkra aðra útvarpssjónauka í fyrsta sinn fundið bein sönnunargögn fyrir því að skífuvetrarbrautir geti myndast við vetrarbrautasamruna og að sú útkoma sé í raun fremur algeng. Þessar óvæntu niðurstöður gætu útskýrt hvers vegna þyrilvetrarbrautir á borð við Vetrarbrautina okkar eru jafn algengar í alheiminum og raun ber vitni.
Niðurstöður 1 til 20 af 1058